Grein

18.2.2009

Hálf öld frá Hermóðsslysinu

Um nýliðin áramót gátu Íslendingar glatt sig við það að árið 2008 urðu engin banaslys á sjómönnum á íslenskum skipum, hvorki hér við land né á fjarlægum slóðum. Slíkri gæfu var sannarlega ekki að fagna um þetta leyti árs 1959. Þá hurfu 42 sjómenn af tveimur skipum í hafið á skömmum tíma. Togarinn Júlí frá Hafnarfirði sökk í aftakaveðri á Nýfundnalandsmiðum í febrúarbyrjun og að morgni hins 18. febrúar fórst vitaskipið Hermóður undan Reykjanesi. Um borð voru 12 sjómenn og drukknuðu þeir allir. Sá elsti var 65 ára, sá yngsti einungis 16 ára. Fimm konur misstu eiginmenn sína og 17 börn sáu föður sinn ekki framar. Höggið var þungt, skarðið stórt.

Hermóður

Vitaskipið Hermóður var annað skipið í eigu Vitamálaskrifstofunnar sem bar heiti sendiboða ásanna — hins hvata sonar Óðins — sem frá er sagt í Snorra Eddu. Skipið var smíðað í Stokkhólmi eftir fyrirsögn starfsmanna Vitamálaskrifstofunnar og var fullbúið haustið 1947.

 

Skrokkur Hermóðs var úr stáli, sérstyrktur til siglinga í ís. Skipið var ekki ýkja stórt, einungis 33,7 m að lengd og 7 m að breidd, talið 208 brúttótonn að þeirra tíðar mælingareglum og bar um 150 tonn.

 

Meginverkefni Hermóðs voru flutningar vegna vitaþjónustunnar. Ferðir með gashylki í vitana voru árvissar og flutningur á matvælum, kolum, áburði og öðrum nauðsynjum til vitavarða einnig. Auk vitaþjónustunnar og tilfallandi verkefna við flutninga fyrir Landssímann var Hermóður notaður til landhelgisgæslu að vetrarlagi þegar minnst þörf var fyrir hann á öðrum vettvangi. Hann var þá leigður Landhelgisgæslunni með allri áhöfn um tveggja til þriggja mánaða skeið og sinnti gjarnan eftirlits- og björgunarstörfum við Vestmannaeyjar framan af vertíð.

 

Síðasta siglingin

Þann 17. febrúar 1959 lá Hermóður í Vestmannaeyjahöfn. Eins og oft áður hafði skipið gegnt hlutverki varðskips á Eyjamiðum undanfarið og nú var tímabært að halda heim til Reykjavíkur eftir tveggja vikna úthald. Veður var allsæmilegt síðdegis þegar Hermóður sigldi frá Eyjum en fór versnandi og um kvöldið var komið hávaðarok af suðvestri.

Storminum fylgdi mikið hafrót. Flutningaskipið Vatnajökull komst nauðulega gegnum Reykjanesröstina fyrri hluta nætur. Hermóður var nokkuð á eftir honum. Hann var undan Reykjanesi þegar samtöl fóru á milli skipanna um fjögurleytið um nóttina. Þá amaði ekkert að tólfmenningunum um borð en röddin í talstöð Vatnajökuls var síðasta lífsmarkið sem barst frá vitaskipinu Hermóði.

Búist var við Hermóði til hafnar í Reykjavík að morgni 18. febrúar. Hann kom ekki og leit hófst. Um hádegisbilið sáu leitarmenn fyrstu vísbendingarnar um að vitaskipið væri ekki lengur ofansjávar þegar brak úr því tók að reka á fjörur í Höfnum. Lestarhlerar og brotinn björgunarbátur Hermóðs gáfu til kynna að ólíklegt væri að nokkur vitaskipsmanna hefði komist lífs af.

Þegar daginn eftir slysið þótti ljóst að Hermóður hefði sokkið skyndilega án þess að skipverjar ættu sér neina von um björgun og þeir voru allir taldir af. Alþingi felldi niður reglulega fundi sína og hélt þess í stað stuttan minningarfund í samúðar- og virðingarskyni við hina látnu sjómenn og aðstandendur þeirra.

Björgunarsveitir hættu leit þegar vonir um að skipverjar fyndust á lífi voru kulnaðar. Liðsmenn Landhelgisgæslunnar notuðu þó hvert tækifæri til að svipast um eftir vísbendingum um hvarf Hermóðs og urðu þess brátt áskynja af olíudreif á sjónum undan Höfnum að þar myndi flak skipsins að finna. Ýmislegt brak úr skipinu rak á fjörur á Reykjanesi dagana eftir slysið en líkum sjómannanna skilaði hafið ekki.

Vitamálaskrifstofan og Landhelgisgæslan höfðu forgöngu um að haldin var fjölsótt minningarathöfn um Hermóðsmenn í Dómkirkjunni í Reykjavík þann 7. mars 1959. Á sjómannadaginn árið 1996 var vígt í Fossvogskirkjugarði í Reykjavík minningarmark um drukknaða sjómenn sem ekki hafa fundist og því ekki verið unnt að jarðsetja lík þeirra. Þetta minningarmark heitir Minningaöldur sjómannadagsins og á það eru letruð nöfn horfinna sjómanna. Ættingi eins mannanna sem fórst með Hermóði átti frumkvæði að því við Sjómannadagsráð að minningamarkið var sett upp og við vígslu þess voru nöfn allra Hermóðsmanna skráð á Minningaöldur sjómannadagsins.

Hermóðsslysið er stærsta áfall sem hefur hent íslensku vitaþjónustuna fyrr og síðar. Sjómennirnir tólf urðu ekki grátnir úr helju frekar en Baldur hinn góði sem æsir sendu Hermóð hinn hvata að sækja úr greipum dauðans. Þeir fylla flokk hinna fjölmörgu íslensku sjómanna sem hafa týnt lífi við störf sín og minning þeirra verðskuldar virðingu.

Undanfarið höfum við borið gæfu til að vinna svo að málum að sjóslysum hefur snarfækkað. Til þess þurfti ötult og markvisst starf margra aðila að slysavörnum og öryggismálum sjómanna. Miklu skiptir að haldið verði einarðlega áfram á þeirri braut.


Leit

Leit
Leturstærð
  • Minnka letur
  • Stækka letur
  • Breyta bakgrunnslit
Byggir á LiSA - Eskill, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi