Grein

28.7.2009

Slysavarnir - einkamál verður samfélagsverkefni

Öldum saman sóttu Íslendingar sjó á opnum bátum. Slysavarnir eða öryggistæki voru að heita mátti engin þótt sjóslys væru bæði tíð og mannskæð. Hvorki samtök einstaklinga né samfélagsstofnanir sem unnu gegn sjóslysum eða stóðu að björgun manna úr sjávarháska urðu til fyrr en á 20. öld. Fram til þess voru sjóslys einkamál þeirra sem í hlut áttu.

Sjómenn fyrri tíðar höfðu ekki á annað að treysta en eigið hyggjuvit og reynslu. Hjálpargögn, leiðbeiningar, viðvaranir eða félagslegt öryggisnet var fjarri veruleika þeirra. Formenn voru margir veðurglöggir og draumspakir og ber síst að vanmeta kunnáttu þeirra og færni við skipstjórn. Augljóst er þó að þeir máttu sín lítils gagnvart síbreytilegu veðurlagi og voru berskjaldaðir fyrir ofurefli náttúrunnar.

Frumkvöðull frá Grindavík
Séra Oddur V. Gíslason, sóknarprestur og sjómaður í Grindavík árabilið 1879–1894, telst einn allra fyrsti baráttumaður fyrir slysavörnum og öryggismálum íslenskra sjómanna. Eftir sjóslysaveturinn mikla 1886–1887 tók Oddur að halda uppi áróðri í ræðu og riti fyrir slysavörnum á sjó, þar á meðal notkun lýsis til að lægja öldur — og hann lagði til að sjómönnum yrði kennt að synda en sú list var einungis á fárra færi á þeim árum. Einnig hélt hann að sjómönnum fræðslu um þau hjálpartæki sem þá var völ á við siglingar; áttavita og loftvog.

Séra Oddur gerði tilraunir til að koma baráttumálum sínum á varanlegan og víðtækari grundvöll með stofnun félaga — bjargráðanefnda — allvíða um land, en af því varð lítill árangur. Íslendingar voru enn óvanir félagastarfi og margir vafalaust þeirrar hyggju að það væri handan þess sem mannlegur máttur réði við að sporna við sjóslysum og manntjóni af þeirra völdum. Séra Oddur barðist hetjulega fyrir hugðarefni sínu í nokkur ár, en talaði fyrir daufum eyrum, og fluttist að lokum til Vesturheims árið 1894. Einn maður, þótt eldhugi væri, fékk litlu áorkað. Sjóslys voru enn einkamál.

Slysavarnir og öryggismál á samfélagsvettvangi
Þótt sjómenn reyndust lítt móttækilegir fyrir slysavarnaboðskap séra Odds undir lok 19. aldar varð margvísleg gerjun í íslensku samfélagi á hans tíð og árunum næstu á eftir sem smám saman varð til þess að breyta viðhorfum til öryggismála sjómanna og færa þau inn á svið samfélagsmálefna.

Fyrsti viti landsins hafði verið reistur árið 1878 og skömmu fyrir aldamótin voru byggðir þrír vitar til viðbótar sem urðu grunnur að vitakerfi landsins. En Íslendingar voru lítt vakandi fyrir slysavarnamálum í aldarbyrjun. Fyrstu skipbrotsmannaskýlin í land-inu voru reist fyrir erlent fé og að frumkvæði útlendinga árin 1912 og 1913. Sjálfsbjargarviðleitni landsmanna miðaðist enn við að takast á við aðstæður hverju sinni fremur en að leitast við að móta þær, hafa áhrif á atburði og skipuleggja athafnir sínar í fjöldahreyfingum á opinberum vettvangi.

Ýmsu þokaði þó áfram. Stýrimannaskóli hóf starfsemi í Reykjavík árið 1891, Skipstjóra- og stýrimannafélagið Aldan var stofnsett árið 1893 og Fiskifélag Íslands árið 1911. Þannig efldist félagsstarfsemi og hagsmunabarátta á vettvangi sjávarútvegsmála smám saman og öryggismál urðu samfélagsmál í stað þess að vera málefni hvers og eins. Véltæknin barst til landsins. Togaraútgerð hófst, einnig vélbátaútgerð og sjómennska og vinnsla sjávararfurða urðu aðalstarf fjölda fólks árið um kring en ekki árstíðabundin iðja eins og áður hafði verið. Hagsmuna- og kjarafélög sjómanna og útgerðarmanna létu sig öryggis- og björgunarmál varða, ekki síst Fiskifélagið, sem var vettvangur sjómanna og útvegsmanna í senn. Togaraútgerð var einkum starfrækt á fáeinum stöðum Suðvestanlands en vélbátaútgerð varð mikil víða um land. Fyrsta björgunarfélag landsins var stofnað í Vestmannaeyjum, einni stærstu vélbátaverstöðinni, árið 1918 og tveimur árum síðar eignaðist félagið björgunar- og gæsluskipið Þór.

Opinberar stofnanir og félagasamtök um slysavarnir og öryggismál sjómanna sérstaklega urðu til á öðrum og þriðja áratug 20. aldar. Ber þar helst að nefna Landhelgisgæsluna sem stofnuð var 1926 og Skipaskoðun ríkisins sem sett var á laggirnar árið 1928. Stofnanir og félög sem stuðluðu að öryggi allra lands-manna urðu einnig til á sama tímabili. Veðurstofa Íslands var stofnuð árið 1920, Ríkisútvarpið árið 1926 og Slysavarnafélag Íslands árið 1928. Veðurfregnir, fjarskipti, bættar samgöngur á sjó og landi, margháttaður öryggisbúnaður, markvissari fræðsla um slysavarnir og viðbrögð við slysum, rekstur björgunartækja og þjálfaðara björgunarsveita hefur fyrir löngu sannað gildi sitt í slysavörnum. Margir aðilar eiga þar hlut að máli og nálgast viðfangsefnið með ólíkum hætti og úr mismunandi áttum. Sjóslys og sjóslysavarnir eru nú samfélagsmál.

Skipbrot á Dritvíkurflös
Nú á dögum ríkir almennt samkomulag um að slysavarnir falli undir samfélagsmálefni og þannig er
yfirleitt fjallað um þau. Tiltækar eru staðtölur um fjölda slysa ár frá ári og margháttuð önnur vitneskja í skýrslum og ritum af ýmsu tagi. Slík umfjöllun er nauðsynleg og mikilvæg fyrir margra hluta sakir. En í fræðiritunum eru sjaldnast leiddir fram þeir einstaklingar sem í hlut eiga, þó slysfarir feli fyrst og síðast í sér örlög þeirra sem fyrir þeim verða. Slys hafa einnig jafnan djúp áhrif á aðstandendur og jafnframt á björg-unarmenn. Í frásögninni sem hér fer á eftir er lýst atvikum á strandstað við Djúpalónssand í mars 1948 þegar björgunarsveitarmenn freistuðu þess að bjarga togaraáhöfn með fluglínutæki. Þannig var veruleikinn þá.

Áður en þyrlur voru teknar í notkun við björgun manna úr sjávarháska var það ekki fátítt að björgunarliðum sóttist seint að komast á slysstaði. Sjóslys og skipströnd verða oft fjarri byggðum bólum og jafnvel þótt svo væri ekki gat reynst torfarið á strandstað meðan vegakerfið var ófullkomið og bílar veigalitlir.

Aðeins fimm af 19 skipverjum björguðust
Neyðarkall frá skipverjum á breska togaranum Epine barst loftskeytasköðinni í Reykjavík á tólfta tímanum að kvöldi laugardagsins 13. mars árið 1948. Skipið var þá strandað á Dritvíkurflös í suðvestanroki og foráttubrimi. Um borð voru 19 menn.

Jón E. Bergsveinsson, sem um langt skeið var erindreki Slysavarnafélags Íslands, lýsti björgunartilraunum við Djúpalónssand í eftirfarandi bréfi sem hann ritaði Emil Jónssyni þáverandi samgönguráðherra hinn 23. apríl 1948. Frásögn hans er yfirveguð og málefnaleg. En engum sem hana les getur dulist hvílík raun það var þeim mönnum sem unnu að björgunarstörfum og slysavörnum að horfa upp á menn í hafsnauð farast án þess að geta komið þeim til aðstoðar.

Þegar togarinn Epine frá Grimsby strandaði við Djúpalónssand um kl. 23.30 hinn 13. mars 1948 var um háfjöru. Ef sæmilega vel ruddur vegur, fær jeppabifreiðum, hefði þá verið milli Arnarstapa um Hellna, Dagverðará að Malarrifi og lítið eitt lengra meðfram ströndinni svo björgunarliðsmennirnir frá þessum stöðum hefðu getað komist á strandstaðinn á hálfum öðrum klukkutíma virðast mér líkur benda til að nokkrum fleiri mönnum hefði mátt bjarga en raun varð á. Skipið var traust og sterkt, talstöð þess var starfrækt um þrjár klukkustundir eftir að það strandaði og því hægt að fylgjast með því helsta sem gerðist um borð fyrstu klukkustundirnar. Skipbrotsmenn voru í fullu fjöri, lítt þjakaðir af vosbúð og kulda og því með nokkurn veginn fulla líkamskrafta fyrstu klukkutímana eftir strandið. Bilið milli skips og lands, meðan lágsjávað var, var talið nokkuð á annað hundrað metrar og því hægara að hitta með skotinu á stuttu færi en um flóðið þegar vegalengdin var talin um eða yfir 250 metra.

Björgunarliðar komu ekki á strandstaðinn með björgunartækin fyrr en eftir 5½ klukkustund og var þá komið nálægt flóði.

Þeir sáu menn í reiðanum á hvalbak og brúarþaki. Þeir skutu þrem skotlínum að skipinu án þess að hitta. Þá var beðið útfalls. Um það bil er sjór var hálffallinn var reynt á ný að skjóta línu að skipinu en það mistókst einnig. Enn var beðið stundarkorn og svo enn einni línu skotið að skipinu. Skotið hitti og lenti þvert yfir skipið en mönnum þeim er reyndu að ná henni skolaði fyrir borð. Öðru skoti var skotið, sem einnig hitti, en það fór á sömu leið, skipbrotsmenn náðu ekki línunni. Í þriðja sinn var skipið hitt og gátu þá menn í landi borið línuna þannig að skipbrots-menn sem voru í reiðanum gátu náð henni, dregið til sín tildráttartaugina og fest halablökk-inni. Var þá dregin til þeirra líflínan og björgunarstóllinn. Eftir það var auðvelt að draga þá menn í land sem í stólinn komust en það voru aðeins 4 menn. Sá fimmti, sem var í reiðanum, hafði ekki þrek til þess að komast í stólinn, féll fyrir borð og drukknaði. Þer sem á brúarþakinu voru komust heldur ekki fram á hvalbakinn eða í reiðann og skolaði þeim fyrir borð svo að þeir gistu hina votu gröf ásamt flestum skipsfélögum sínum er verið höfðu.

Menn þeir er horfðu á þennan harmleik úr landi munu seint gleyma honum og efasamt hvort
sumir þeirra bíða þess nokkurntímann bætur að vera þar áhorfendur. Svo átakanlegur var hann.

Kristján Sveinsson, sagnfræðingur


 

1. til 2. desember 1948, mönnum bjargað úr breska togaranum Sargon sem strandaði undir Hafnarmúla við Patreksfjörð. Frá Ljósmyndasafni Reykjavíkur, ljósmyndari: Óskar Gíslason

Leit

Leit
Leturstærð
  • Minnka letur
  • Stækka letur
  • Breyta bakgrunnslit
Byggir á LiSA - Eskill, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi