Grein

11.11.2009

Vöktun og öryggi sjófarenda

Siglingastofnun annast rekstur landsvitakerfisins og hefur umsjón og eftirlit með uppbyggingu hafnarvita og innsiglingamerkja en vitarnir eru ein grunnstoð öryggis fyrir sæfara og eiga sér langa og merka sögu.

Líklega eru ekki mörg ríki sem leggja eins mikið upp úr öryggisvöktun sjófarenda, eins og gert er hér á landi, enda eru aðstæður hér um margt óvenjulegar. Veðurfar er síbreytilegt og sjósókn oft erfið. Allt frá árinu 1978 hefur verið unnið að skipulagðri upplýsingaöflum um skip á sjó. Fyrst með tilkynningaskyldu skipa á vegum Slysavarnafélagsins sem síðar varð að sjálfvirkri tilkynningaskyldu skipa frá árinu 2000. Við stofnun Vaktstöðvar siglinga sumarið 2004 var sjálfvirka tilkynningaskyldan (STK) ásamt fjarskiptum flutt úr Gufunesi í vaktstöðina í Skógarhlíð. Samkvæmt lögum fer samgönguráðherra með yfirstjórn mála er varða Vaktstöð siglinga en Siglingastofnun Íslands fer með framkvæmd þeirra.

Nú er hægt að vakta íslensk fiskiskip eftir þremur mismunandi leiðum. Skip utan STK / AIS svæðis tilkynna sig um Inmarsat gervihnattakerfi á klukkustundar fresti en skip á grunnmiðum eru í stöðugri ferilvöktun í STK og að hluta í AIS. Allt bendir til að AIS-kerfið taki við hlutverki STK varðandi ferilvöktun í framtíðinni og að um leið verði tekin upp DSC fjarskipti við skip á metrabylgju (VHF), en nýjar fjarskiptastrandastöðvar vaktstöðvar siglingar eru til þess búnar. Á árinu var tekið í notkun svokallað LRIT ( Long Range Identification and Tracking ) kerfi sem er sjálfvirkt tilkynningakerfi til að bera kennsl á kaupskip og fylgist með siglingu þeirra um úthöfin í gegnum gervihnetti. Kerfi þetta sendir tilkynningu um stað skips fjórum sinnum á sólarhring. Upplýsingar úr kerfinu geta yfirvöld nýtt til almenns eftirlits með siglingum um lögsögu sína eða við leit og björgun.

Vöktun fiskiskipa er eitt þeirra mikilvægu atriða sem hafa bætt öryggi við sjósókn þannig að árið 2008 var fyrsta árið sem ekki urðu dauðsföll við sjósókn á fiskiskipum hér á landi. Önnur atriði eiga þar vafalaust stóran þátt, svo sem öryggisfræðsla sjómanna, bættur skipakostur, breytt sóknarmynstur báta, betra aðgengi sjómanna að veðurupplýsingum og áfram mætti telja. Eitt atriði er kannski vanmetið en það er hið mikla átak sem lagt var í af Siglingastofnun á árunum 1996 -2000 hvað varðaði stöðugleika fiskiskipa.

Með samstilltu átaki sjómanna og þeirra aðila í landi sem koma að öryggismálum þeirra sjáum við vonandi fleiri ár framundan án dauðsfalla á sjó.

Frá Vaktstöðinni. Ljósmynd: Jón Páll Ásgeirsson

Leit

Leit
Leturstærð
  • Minnka letur
  • Stækka letur
  • Breyta bakgrunnslit
Byggir á LiSA - Eskill, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi